Á komandi árum munu Bandaríkin til dæmis taka
ákvörðun um nýjan sjónvarpsstaðal. Ljóst
þykir nú að sá staðall verður al-stafrænn.
Það þýðir að tölvur geta lesið sjónvarpssendingar,
breytt þeim og birt að vild. Slíkt opnar möguleika
á að leyfa neytendum að panta efni, leita að upplýsingum
og fá þær samstundis sendar heim í stofu, vinnustað
eða hvar sem móttökutæki eru til staðar. Það
er einnig skammt í að tónar, tal, og myndefni hvers konar
sem safnað er af almenningi jafnt sem atvinnufréttamönnum
verði allt skráð og geymt á stafrænu formi-tölvur
geta því geymt þær upplýsingar, sent þær
eftir símalínum, birt þær á skjám,
lesið þær upphátt fyrir mann eða breytt þeim
á hvern þann hátt sem maður kýs. Í stað
þess að stór fyrirtæki ákveði skemmti-
og fréttaefni fyrir alla íbúa heillar borgar eða
lands, ræðst dreifing upplýsinga og skemmtiefnis af smekk
og þörfum hvers einstaks neytanda. Á næstu öld
munu verða gífurlegar breytingar í samskiptum, upplýsingamiðlun
og upplýsinganotkun. Ég hef valið fjóra þætti
tölvuþróunar sem ég tel að muni skipta miklu
máli í framtíðinni. Auk þess að hafa
bein áhrif á daglegt líf okkar munu þessir þættir
gjörbreyta viðhorfi okkar til véla-og til okkar sjálfra.
Gervigreind
Flestir kannast við kvikmyndir svo sem "Geimferð, árið
2001" (2001: A Space Odyssey), "Tortímandann" (Terminator)
og "Stjörnustríð" (Star Wars). Þessar myndir
eiga það sameiginlegt að söguhetjur þeirra eru
vélar sem gæddar eru því sem við gætum
kallað "vélviti." Þótt enn virðist
að minnsta kosti nokkrir áratugir í að tölvur
öðlist jafn margþátta og flókna greind og menn,
þýðir það ekki að gervigreind sé útilokuð — eða
ekki til. Vélvit í raunveruleikanum er hinsvegar talsvert
frábrugðið því sem sést í kvikmyndum.
Mörg forrit sem eru í notkun nú hafa það sem
mætti kalla "takmarkað vit" — þekkingu á
afmörkuðu sviði. Til eru til dæmis forrit sem spá
fyrir um jarðskjálfta, framkvæma sjúkdómsgreiningar,
semja sögur og tefla. Mörg þeirra standa sig jafn vel og
mennskir starfsbræður þeirra. Það sem háir
slíkum forritum hins vegar er heimska þeirra á öllum
sviðum öðrum en þeim sem þau voru sérstaklega
hönnuð fyrir. Frá því að gervigreindarrannsóknir
hófust, fyrir aðeins 38 árum, hafa vísindamenn
komist að því að það sem okkur finnst auðvelt
er erfitt fyrir tölvur og öfugt. Eins erfitt og mönnum reynist
að reikna út kvaðratrótina af tvöþúsundþrjátíuogníu,
þá eiga tölvur ótrúlega erfitt með að
smyrja brauð, skrúfa frá krana, spila borðtennis eða
ganga um herbergi án þess að rekast á.
N&ýlegar rannsóknir hafa samt leitt í ljós aðferðir
sem gætu gert tölvum mögulegar slíkar athafnir. Rodney
Brooks við M.I.T. hefur til dæmis hannað "véldýr"
sem hafa næga greind til að ganga um án þess að
rekast á. Fremst í flokki véldýra hans er sex
lappa málmskordýr sem lærir að hreyfa fæturnar
rétt til að komast yfir ójöfnur og forðast að
ganga á hluti sem það kemst ekki yfir. Slík véldýr
hafa meðal annars nægilega greind til að ferðast ein um
á Mars og safna sýnum. Ýmislegt bendir til að greind
sem þessi geti verið nytsamleg á mörgum sviðum,
ekki aðeins á Mars. Til dæmis hafa svipuð forrit og
stjórna véldýrum Brooks verið notuð til að
hafa umsjón með tölvugagnavinnslu og búa til tölvuteiknimyndir.
Á næstu öld má búast við að gervigreindarrannóknum
fleygi áfram. Tvennt kemur þar til. Í fyrsta lagi hafa
rannsóknir á taugakerfum dýra þegar leitt í
ljós ýmislegt sem nýst hefur í þróun
gervigreindar. Í öðru lagi eru rannsóknir mjög
að aukast sem leitast við að sameina niðurstöður
úr sálarfræði, tölvufræði og lífeðlisfræði,
en slíkt er nauðsynlegt til að auka skilning á þeim
ferlum sem liggja að baki greindar hjá mönnum og dýrum.
Þótt sum gervigreindarforrit framtíðarinnar verði
notuð til að stjórna vélmennum sem ryksuga, hreinsa
glugga, bóna gólf eða þrífa klóakksrör
munu fleiri þeirra líklega búa í heimi tölvunnar.
Hlutverk þeirra verður margþætt; slík forrit
geta fært sig milli tölva og birst á hvaða skjá
sem er, í hvaða gervi sem er. Sum þeirra munu aðstoða
okkur við að finna upplýsingar, panta flugmiða, senda skilaboð
eða velja íbúð. Önnur munu verða eins konar
"tölvuræstingarmenn" sem hreinsa til í tölvukerfum,
sjá um að tölvuvírusar komist ekki inn í kerfið
og halda hlutum til reiðu. Enn önnur forrit munu hafa nægilegt
vit til að tala við okkur á mæltu máli.
Samskipti við vélar
Rannsóknarstofnun Boðmiðla beinir spjótum sínum
meðal annars að því að einfalda samskipti manna
við tölvur. Eitt megin markmiðið er að gera samskipti
við vélar jafn auðveld og samskipti við annað fólk.
Á rannsóknarstofu okkar, undir stjórn Dr. Richard A.
Bolt, höfum við þróað tölvukerfi sem gera
notendum kleyft að nota tal og handahreyfingar til að gefa tölvunni
skipanir. Í stað lyklaborðs notum við litla myndavél
sem nemur hvert notandinn er að horfa, sérútbúnir
hanskar segja tölvunni hvað hann er að gera með höndunum.
Lítill hljóðnemi sendir tal til tölvu sem túlkar
mælt mál. Með því að bera saman athafnir
notanda í tali og handahreyfingum, ásamt vitneskju um hvert
hann er að horfa, getur tölvan framkvæmt flóknar skipanir
svo sem að teikna þrívíðar myndir. Notandinn
segir til dæmis "búðu til herbergi" og horfir
á vissan stað á skjánum. Tölvan teiknar mynd
af herbergi þar sem hann horfði. "Settu borð hér"
segir notandinn og sýnir með annarri hendinni hvar borðið
á að koma. Borðið birtist á þeim stað
sem beðið var um. "Það er mús..." (hægri
höndin sýnir staðsetningu músarinnar) "...við
hliðina á borðinu" (vinstri höndin sýnir hvar
borðið er miðað við músina). Innan tveggja sekúndna
teiknar tölvan litla mús þeim megin við borðið
sem notandinn vildi. "Láttu hana hlaupa í þessa
átt" (handahreyfing sýnir í hvaða átt).
Músin hleypur eftir gólfinu í sömu átt
og höndin sýndi. Samskipti sem þessi ættu að vera
öllum kunn-við notum nákvæmlega sömu boðskiptaleiðir
þegar við tölum við hvert annað.
Innan áratugar munu framfarir í tölvusjón gera
vélum kleift að horfa á okkur í gegnum myndavélar
og skilja nákvæmlega hvað við erum að segja. Allir
sem eru færir um félagsleg samskipti geta þá notað
tölvur-engin ástæða til að lesa leiðarvísa
eða læra sérstakt skipanamál...allt sem þarf
til er að geta útskýrt mál sitt á sama hátt
og við gerum á hverjum degi í samskiptum við aðra.
Margt mun breytast í þjóðfélaginu þegar
neytendur geta notað einfaldar en jafnframt öflugar samskiptaaðferðir
til að sækja upplýsingar í gagnabanka sem geyma fréttir
og skemmtiefni. Eftir tuttugu ár gæti ég gengið
að tölvunni minni og beðið hana um að finna fyrir mig
bíómynd í svipuðum dúr og "Sound of
Music" — hún sér svo um að hringja í réttan
gagnabanka og jafnframt að færa greiðslu af tölvubankareikningum
mínum yfir til eigenda gagnabankanns. Ef ég man ekki nafn
á einhverri bíómynd gæti ég lýst
fyrir tölvunni atriðum úr myndinni og hún reyndi
að túlka um hvaða mynd um væri að ræða.
Ekki er ólíklegt að tölva-eða forrit-sem maður
hefur samskipti við á þennan hátt taki á
sig persónueinkenni. Tölvuforrit sem læra inná
einkenni manns, skapgerð og samskiptastíl munu eflaust taka við
hlutverki eins konar félaga, ekki ósvipað því
sem hundar eða kettir þjóna nú. Þróun
í þessa átt er reyndar þegar hafin: Joseph Bates,
við Carnegie-Mellon háskólann í Pittsburg, hefur
þróað lítil "skjádýr" sem
hægt er að hafa samskipti við með lyklaborði og mús.
Dýrin, sem hvert hefur sinn sérstaka persónuleika, geta
farið í eltingaleiki og leikið ýmsar listir fyrir notandann.
Pattie Maes, við Rannsóknarstofnun Boðmiðla, hefur þróað
forrit sem hjálpa notendum að skipuleggja fundi, flokka tölvupóst
og leita að fréttum (sem birtast í tölvugagnabönkum
um allan heim) sem líklegt þykir að notandinn hafi áhuga
á. Því meira sem forritin eru notuð, því
betur læra þau að þekkja smekk notandans. Þau
verða því stöðugt betri "aðstoðarmenn."
Slík forrit eru kölluð "agents" á ensku
og hef ég kosið að kalla þau "tölvuerindreka"
eða bara erindreka á íslensku.
Hvert gætu næstu skref í þessari þróun
leitt okkur? Ímyndið ykkur að á skjánum séu
ekki aðeins "skjádýr" heldur andlit sem getur
sýnt svipbrigði og horft í kringum sig. Notandinn snýr
sér að andlitinu og það tekur strax eftir að verið
er að horfa á það. Það lítur á
móti og spyr "Var það eitthvað sérstakt?"
Undanfarið ár hef ég stundað þróun á
slíku kerfi sem getur talað við mann, svarað fyrirspurnum
og framkvæmt skipanir sem gefnar eru á mæltu máli.
Í þessu kerfi er andlitið á skjánum bókstaflega
andlit tölvunnar útávið. Á sama hátt
og svipbrigði, augnhreyfingar og látbragð fólks í
daglegu tali gefa okkur upplýsingar um hvað það er að
hugsa, gefur tölvuandlitið notandanum til kynna ástand tölvunnar:
er hún upptekin eða er hún að "fylgjast með?"
Hefur hún skilið það sem við sögðum eða
þurfum við að útskýra eitthvað betur? Í
framtíðinni gæti hver maður átt sinn eiginn
tölvuerindreka sem vakir yfir honum dag og nótt (hann gæti
til dæmis átt heima í armbandsúri). Slíkur
erindreki gæti skráð heilsufar notandans, haft samskipti
við hann á töluðu máli, svarað tölvupósti,
skrifað bréf eftir upplestri, sótt upplýsingar um
veðurfar hvar sem er í heiminum, gert sjúkdómsgreiningar,
stjórnað lyfjagjöf og fleira. Hann gæti einnig þjónað
hlutverki einkakennara. Einkaerindrekar gætu hugsanlega valdið
mestu breytingu á daglegu lífi okkar síðan armbandsúr
komu til sögunnar. Þeir munu að minnsta kosti gjörbreyta
samskiptum okkar við vélar.
Fjarskipti og tenginálægð
Frá því að fyrst var byrjað að leggja
símalínur hafa fjarskipti gegnum víra stöðugt
aukist. Með tilkomu ljósleiðara stendur nú fyrir dyrum
breyting sem mun ekki aðeins gera sjónvarpssíma að
raunveruveruleika heldur gerbreyta dreifingu upplýsinga og skemmtiefnis,
eins og þegar hefur verið ýjað að. Ljósleiðarar
geta borið 6 milljónum sinnum meiri upplýsingar en símalínur
þær sem liggja nú í flest heimahús. Þótt
varla svari kostnaði að skipta út þeim leiðslum
sem þegar hafa verið lagðar má ætla að ljósleiðarar
til annarra heimsálfa auki möguleika Íslendinga á
aðgangi í ýmsar upplýsingar og þjónustu
sem gætu skipt sköpum fyrir samkeppnishæfni okkar á
erlendum mörkuðum. Öll skilaboð sem fara um ljósleiðara
eru stafræn. Mikið hefur verið rætt um sýndarveruleika
í fjölmiðlum að undanförnu. Megin eiginleiki slíkra
kerfa er að telja skynfærum okkar trú um að við
séum annarstaðar en við erum. Þessi tækni, sem
kalla má hermun eða líkingu, notast við tölvulíkön
af því hvernig hljóð berst til eyrna okkar og myndir
til augnanna til að geta hermt eftir ýmsum skynáreitum á
sannfærandi hátt. Þannig getur maður komist inn í
"heim" sem er teiknaður af tölvu og hefur í raun
aldrei verið til. Svipuð hugmynd er sjón- og hljóðvörpun
raunverulegra aðstæðna (í stað tilbúins
heims tölvunnar) þannig að manni finnst maður vera á
öðrum stað á hnettinum. Fyrir framan augu notandans
er komið fyrir litlum skjám (einum fyrir hvort auga) sem tendir
eru myndavélum staðsettar á allt öðrum stað.
Hreyfingum þessara myndavéla er stjórnað af höfuðhreyfingum
notandans. Hann getur því séð umhverfið þar
sem myndavélarnar eru eins og hann væri þar sjálfur.
Ef skilaboðin frá höfuðhreyfingum notandans eru send
nægilega hratt til myndavélanna, þannig að þau
fylgi hverri hreyfingu hans nákvæmlega eftir, fær hann
á tilfinninguna að hann sé í raun þar sem
myndavélarnar eru. Slík upplifun er kölluð "telepresence"
á ensku. Við gætum kallað það "tenginálægð"
eða "sýndarnærveru" á íslensku.
Athyglisverð útkoma fæst með því að
blanda saman, í sömu andrá, sýndarveruleika og tenginærveru.
Við gætum til dæmis hugsað okkur að skurðlæknir
sem staddur er í Frakklandi gæti framkvæmt uppskurð
á Íslandi með því að setja á sig
"skjágleraugu" og fjarstýra hreyfingum vélarma
á Íslandi sem geta haldið á réttu verkfærunum.
Tölva sem tengd er ýmsum mælitækjum gæti teiknað
upplýsingar um líkamsstarfsemi sjúklings inná
myndina sem sést gegnum myndavélarnar. Þannig gæti
læknirinn séð starfsemi hjartans "í gegnum"
líkamann, blóðflæði gæti til dæmis
verið sýnt með tölvuteiknuðum örvum, hann gæti
"heyrt" blóðþrýsting (blóðþrýstingi
breytt yfir í tóna með aðstoð tölvu), og
"farið inn í" æðar með því
að tengja skjágleraugun sjónvarpsmynd sem fengin er gegnum
ljósleiðara sem þræddur er inn í æðarnar.
Eitt af mikilvægustu sviðum sem nýta má þessa
tækni á er menntun. Menntakerfið á eftir að
taka stórt skref fram á við þegar kerfi sem þessi
gera nemendum til dæmis kleift að fara á bak risaeðlum
eða taka þátt í bæjarlífi á
fimmtándu öld með hjálp sýndarveruleika og ferðast
um á öðrum plánetum með hjálp tenginálægðar.
Rafverur
Virtir vísindamenn eins og til dæmis Marvin Minsky hjá
Rannóknarstofnun Boðmiðla og Hans Moravec við Carnegie-Mellon
háskólann telja að innan fimmtíu ára muni
verða hægt að auka greind manna með beinni tengingu milli
tölvu og heilans. Lífverur sem tengdar eru rafeindabúnaði
sem hefur áhrif á eða mælir líkams- eða
taugastarfsemi eru kallaðar "cyborgs" á ensku og mætti
kalla "rafverur" á íslensku. Fram að þessu
hafa rafverur eingöngu verið til í heimi bókmennta
og kvikmynda. Rannsóknir benda hins vegar til að slíkur
samruni manns og vélar sé alls ekki útilokaður,
spurningin er aðeins hversu fljótt það muni vera hægt.
Ímyndið ykkur að geta flett upp á hvaða blaðsíðu
sem er í alfræðiorðabókum, horft á bíómyndir
eða leitað uppi uppáhalds tónlist með hugsun einni.
Þráðlaus tenging gæfi manni aðgang í öll
tölvusöfn heims, allan sólarhringinn, óháð
stað og stundu. Maður gæti, með hugsun einni, haft samskipti
við hvern sem er, hvar sem er í heiminum.
Tilraunir til að tengja tölvur við skynfæri manna
hafa þegar verið reyndar með góðum árangri.
Eins og er snúast þær fyrst og fremst um að gefa
skynskertu fólki sjón og heyrn. Heyrnarskertir og heyrnarlausir
sem hafa heilbrigða heyrnartaug (skyntaugin sem liggur frá eyrum
til heila) geta nú gengist undir aðgerð þar sem þræddur
er örmjór þráður inn í kuðung eyrans.
Þessi þráður er hlaðinn rafskautum sem geta ert
taugaenda með rafboðum. Tölva á stærð við
vasadiskó sér um að breyta hljóðbylgjum, sem
numin eru með hljóðnemum, í rafboð sem líkjast
þeim sem heilbrigð eyru búa til. Gæðin á
slíkum "gervieyrum" eru ekki eins góð og eðlileg
eyru-maður sem hefur verið algjörlega heyrnarlaus frá
fæðingu getur þó átt von á að geta
greint á milli fuglasöngs, bílvéla, hurðaskella
og talaðs máls. Gervisjón er ekki eins langt á
veg komin eins og gerviheyrn, enda eru mannsaugun mun flóknari skynfæri
en eyrun. Engin tækni hefur enn verið þróuð til
að tengja rafeindaljósnema við sjóntaugina, svo að
til að gefa manni gervisjón er höfuðkúpan opnuð
í hnakkanum þar sem sjónstöðvar heilans eru.
Í heilann er stungið fjölda lítilla rafskauta, eða
örskauta. Þessi örskaut eru tengd tölvu sem nemur umhverfið
í gegnum myndavél. Myndin sem fellur á ljósnema
myndavélarinnar er svo send í örskautin. Til þessa
hafa aðeins verið notuð 38 örskaut í tilraunum,
en rannsóknir benda til að um 600 punkta upplausn sé lágmark
til að geta til dæmis gengið um í herbergi án
þess að rekast á.
Á síðustu þremur áratugum hafa menn lært
meira um heilastarfsemi en á öllum öðrum tímum
mannkyns samanlagt. Búast má við stöðugt hraðari
framförum á komandi árum. Það er samt sem áður
stórt skref frá tölvutengingu til skynfæra og til
annarar starfsemi heilans svo sem minnis, rökhugsunar eða þekkingar.
Til að tengja rétt inná heilann þarf ekki aðeins
nákvæmar upplýsingar um starfsemi þeirra svæða
sem tengja á við, heldur líka um hvernig taugar tengjast
innbyrðis. Í heilanum er að finna að minnsta kosti milljarð
(1.000.000.000) taugafruma og innbyrðist tenginngar þeirra eru
breytilegar milli einstaklinga. Að auki er lítið vitað
um æðri heilastarfsemi svo sem rökhugsun, skilning og minni.
Það vill líka oft gleymast í umræðum um
heilatengingu að náttúran hefur valið saman skynfæri
og útlimi í fullu samræmi við stjórnunarbúnaðinn,
þ.e. heilann. Það er því hugsanlegt að
lítið sé unnið með því að senda
upplýsingar beint til heilans-skynfærin eru mun betur í
stakk búin til að taka á móti skilaboðum heldur
en heilasvæði sem voru aldrei til þess gerð. Það
er hins vegar ekki útilokað að heilinn geti lært að
túlka boð frá tölvum og nýtt sér reiknigetu
þeirra ef tengingin er gerð nógu snemma á ævinni,
meðan heilinn er enn í mótun. Værir þú,
lesandi góður, tilbúinn til að setja nýfætt
barnið þitt í uppskurð til að koma fyrir tölvutengingu
til heila? Í þjóðfélagi þar sem útreikningar
og upplýsingar ráða afkomu einstaklinga gæti það
skipt sköpum hvort maður sé með tölvutengingu í
höfuðkúpunni. Afkoma barnabarna okkar seint á næstu
öld gæti ráðist af ákvörðun foreldra
þeirra um að senda þau í réttan uppskurð.